Sérhver fasteignasali skal eigi síðar en 15. október ár hvert vera búinn að skila til eftirlitsnefndarinnar yfirlýsingu um fjárvörslureikninga fyrir undangengið reikningsár, yfirlýsingu um skrá um fjármálagerninga ásamt afriti af gildandi starfsábyrgðartryggingum, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 21. gr. fsl. Eyðublöðin fyrir árið 2021 má nálgast hér. Fasteignasalar eru hvattir til þess að lesa vel þær leiðbeiningar sem koma fram á eyðublöðunum.
Eftirlitsnefndin hvetur einnig til rafrænna skila á framangreindum gögnum og skulu þá afrit af gögnum send með tölvupósti á netfang nefndarinnar enf@enf.is. Einnig er hægt að skila frumritum skjala á skrifstofu eftirlitsnefndarinnar að Höfðabakka 9, 110 Reykjavík.
Eftirlitsnefnd býður ekki upp á símatíma en erindum sem beint er skriflega á netfang nefndarinnar verður svarað við fyrsta tækifæri. Vegna tímabundins álags getur tekið nokkra daga að fá formlegt svar við póstum er varða skil á fjárvörsluyfirlýsingum og starfsábyrgðartryggingu.
Við innlögn starfsréttinda skal fasteignasali skila til eftirlitsnefndarinnar sambærilegri yfirlýsingu fyrir það tímabil sem viðkomandi aðili starfaði sem fasteignasali. Eyðublað fyrir fjárvörsluyfirlýsingu vegna innlagnar löggildingar má nálgast hér. Vakin er athygli á því að á fyrstu auðu línunni þarf að koma fram tímabilið frá síðustu skilum, nánar tiltekið 1.1.2020 til þess dags sem fasteignasali leggur inn réttindi sín hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Hafi tilskildum gögnum ekki verið skilað í réttu horfi hinn 1. nóvember nk. er lögbundin afleiðing þess tímabundin svipting löggildingar fasteignasala ásamt sérstöku gjaldi sem viðkomandi fasteignasali þarf að greiða, að fjárhæð kr. 30.000 sem rennur í ríkissjóð, vegna kostnaðar eftirlitsnefndarinnar vegna þessa. Eftir atvikum er í framhaldinu óskað eftir því að þeir hinir sömu verði sviptir réttindum ótímabundið af hálfu ráðuneytisins, verði skilum ekki komið í rétt horf.
Einnig er vakin athygli á því að ef starfsábyrgðartrygging fasteignasala er ekki fyrir hendi fellur löggilding hans sjálfkrafa niður enda fullnægir fasteignasali ekki lengur lögmæltum skilyrðum til löggildingar. Í slíkum tilvikum er hlutaðeigandi fasteignasala óheimil frekari starfsemi og ber að skila til sýslumanns löggildingarskírteini sínu og er honum óheimilt að annast um þau störf sem í löggildingu felast, sbr. 24. gr. fsl.