Kvörtunarmál flytjast frá ENF hinn 1. september 2021.

Með gildistöku breytingalaga nr. 19/2021 við lög um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, falla úr gildi ákvæði 4. mgr. 19. gr. og 20. gr. laganna, um kvörtunarmál. Fellur þar með úr gildi heimild eftirlitsnefndar fasteignasala til að taka á móti kvörtunum frá kaupendum og seljendum sem telja að fasteignasali hafi valdið sér tjóni með brotum á starfsskyldum sínum eða krafist eða fengið greidda þóknun sem hann átti ekki rétt á.

Eftir 1. september 2021 munu slík mál falla undir ákvæði laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála nr. 81/2019.

Eftirlitsnefnd mun ljúka afgreiðslu þeirra mála sem þegar eru til meðferðar en ekki verður tekið við nýjum kvörtunum eftir 1. september 2021.

Með góðri kveðju, eftirlitsnefnd fasteignasala.

Áskorun Eftirlitsnefndar um skil á fjárvörsluyfirlýsingum.

Ágæti fasteigna- og skipasali.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. og 21. gr. laga um sölu fasteigna og skipa nr. 70/2015 ber sérhverjum fasteignasala að skila til eftirlitsnefndar eigi síðar en hinn 15. október ár hvert yfirlýsingu um fjárvörslur og fjármálagerninga auk afrits af gildandi starfsábyrgðartryggingum. Skilaskyldan er alfarið á ábyrgð og frumkvæði sérhvers fasteignasala.

Verði yfirlýsingum ekki skilað í réttu horfi er lögbundin afleiðing þess tímabundin svipting löggildingar fasteignasala ásamt því að krafist verður greiðslu málskostnaðar, samtals að fjárhæð kr. 30.000. Tímabundin svipting fasteignasala verður lögum samkvæmt tafarlaust auglýst í Lögbirtingarblaðinu. Eftir atvikum er í framhaldinu óskað eftir því að þeir hinir sömu verði sviptir réttindum ótímabundið af hálfu ráðuneytisins, verði skilum ekki komið í rétt horf.

Er hér með skorað á þá fasteignasala sem ekki hafa annast um að skila til eftirlitsnefndarinnar yfirlýsingum um fjárvörslur né starfsábyrgðartryggingu og/eða hafa skilað ófullnægjandi gögnum til eftirlitsnefndar um að afhenda eftirlitsnefnd umbeðin gögn. Þá er áréttað að hafi framangreindum gögnum ekki verið skilað í réttu horfi 1. nóvember 2017, ber eftirlitsnefnd þá fortakslausu lagaskyldu að svipta hlutaðeigandi fasteignasala löggildingu sinni tímabundið.
Virðingarfyllst,

Eftirlitsnefnd fasteignasala.